Kjartan Eggertsson:

Hugmyndafræðilegur grunnur kennsluaðferða í Tónskóla Hörpunnar - T3 (téin þrjú).

Tungumálið - Tæknin - Tónlistin

Tungumálið:
Eitt meginmarkmiðið í tónlistarkennslu er að gera sérhvern nemanda sjálfbjarga í sínum hljóðfæraleik.  Til þess að svo megi verða þarf nemandinn m.a. að kunna það sem við köllum tungumál tónlistarinnar, þ.e.a.s. nóturnar.  Hann þarf að geta lesið, skrifað og talað þetta  tungumál. Svo við getum leikið þá músík sem heimurinn býður upp á þurfum við að vera læs á nóturnar - til að geta búið til músik og miðlað öðrum sem lesa nótur, þurfum við að geta skrifað nótur - og til að geta talað um tónlist og útskýrt þurfum við að kunna heiti nótnanna og annarra tákna  og hugtaka sem notuð eru í nótnaskrift, -við þurfum sem sagt að geta talað tungumál - tungumál nótnanna.
"Blindur er bóklaus maður" segir gamalt máltæki og er átt við mann sem hefur fulla sjón en á enga bók - hann les því ekki neitt og er sem blindur.  Sama gildir um þann sem á margar bækur en kann ekki að lesa.  Kunnátta í nótnalestri er lykillinn að því að geta leikið fjölbreytta tónlist á hljóðfæri, einn eða með öðrum og fyrir aðra. Nóturnar opna okkur sýn inn í heim tónlistarinnar.

Tæknin:
Til að öðlast gott vald á hljóðfæraleik þurfa nemendur að tileinka sér þá aðferð eða tækni sem best þykir að nota við að leika á hljóðfæri.  Um er að ræða gríðarlegan fjölda tækniatriða og hugmynda til að vinna úr, eins og t.d. atriði sem varða líkamsstellingar, fingrasetningar, afstöðu handar og fingra, hreyfingar fingra, staðsetningu handar, stöðu úlnliðs, hreyfingar framhandleggs, - svo eitthvað sé nefnt - auk allra þeirra tækniatriða sem varða hljóðfærið sjálft.  Vitneskjan um þá aðferð sem best þykir að nota og reglubundnar æfingar fleyta nemandanum sífellt lengra fram á við.
Tónlistin sjálf:
Markmið Tónskóla Hörpunnar er að kynna nemendum fjölbreytta tónlist með því að gefa þeim tækifæri á að hlusta á hana og leika og aðstoða þá við að skapa tónlist, ásamt því að veita þeim fullnægju við að leika þá tónlist sem þeir hafa mestan áhuga fyrir sjálfir. Tónlistin er eilíf uppgötvun, -alla ævi eru menn að upplifa eitthvað nýtt í tónlistinni, kynnast mismunandi tónlistarstefnum og uppgötva dásemdir hennar.

Tónskóli Hörpunnar: www.harpan.is